Um safnið

Meginmarkmið Hversdagssafnsins er að rannsaka hið hversdagslega og venjulega, að koma auga á skáldskapinn sem birtist þegar enginn er að fylgjast með.

Á safninu er að finna raddir heimamanna, minningar og sagnabrot sem vekja gleði og sorg og gefa innsýn inn í horfna veröld. Sýningarnar eru settar fram á margvíslegan og gagnvirkan hátt. Hversdagssafnið er staðbundið: það opnar gátt inn í líf fólks á Vestfjörðum en það hefur líka almenna skírskotun því það snertir á hlutum sem eru sameiginlegir með öllum.

Daglegt líf er svolítið eins og hulduefni: það sem gerist inn á milli mikilvægra augnablika í lífinu og heldur öllu saman. Að hitta vini, borða kvöldmat, öskra á börnin, láta öskra á sig, vorkenna sér. Að ganga á milli staða, fara í vinnuna, vera heima, hafa áhyggjur, vaska upp, skera grænmeti. Það er bæði tilviljanakennt og venjubundið.

Um leið og þú stoppar og veitir hinu hversdagslega athygli afhjúpast fegurð þess.

Safnkosturinn er bæði á íslensku og ensku en við erum einnig með safnvísi frönsku og þýsku á safninu.

Ljósmynd: Gunnar Freyr Gunnarsson

Safnstýrurnar, Björg og Vaida, hittust í gegnum sameiginlega ástríðu fyrir hinu hversdagslega á lítilli kvikmyndahátíð á Ísafirði árið 2014. Einhverju seinna ákváðu þær að vinna saman og búa til aðstöðu þar sem þær gætu kafað ofan í hversdagsleikann. Með hjálp frá samfélaginu og Uppbyggingasjóði Vestfjarða opnuðu þær safnið sumarið 2016.

Vaida er sjónrænn mannfræðingur frá Litháen sem kom til Ísafjarðar eftir nám í Trömsö. Björg er fædd og uppalin á Suðureyri, hún er menntuð í hagnýtri menningarmiðlun og vinnur í Menntaskólanum á Ísafirði.

-

-

*verkefnið er stutt af Uppbyggingasjóði Vestfjarða

is_ISÍslenska
%d bloggers like this: