Bíósalurinn

Norðurljós

Norðurljósin. Þessi undursamlegu og fallegu ljós sem birtast á himninum á dimmum vetrarkvöldum. Þau myndast við það að rafhlaðnar agnir frá sólinni rekast á mikilli ferð á atóm og sameindir í lofthjúpi jarðar. Þau eru algengust á norðurhveli jarðar þar sem norðurljósabeltið liggur í kringum Norðurpólinn, 2000–3000 kílómetra umhverfis segulskaut jarðar―en það liggur meðal annars í gegnum Ísland. Þessi ljós hafa dansað yfir höfðum Íslendinga öldum saman en samt er það aðeins nýlega sem þau hafa orðið hluti af vörumerki landsins í tengslum við ferðamannaiðnaðinn. Vörumerkið laðar til landsins á hverjum vetri hóp ferðamanna í leit að stórfenglegum náttúruupplifunum, en ætti það að hafa áhrif á reynslu heimamanna?

Horfið á stiklu úr stuttmyndinni „Norðurljós“.

 

Hljóðin úr eldhúsinu

Guðjóna Albertsdóttir fæddist árið 1916 á Suðureyri við Súgandafjörð og bjó þar með fjölskyldu sinni nánast allt sitt líf. Hún var uppfinningasöm og skapandi kona með frumkvöðlakraft sem tók virkan þátt í þróun samfélagsins sem hún tilheyrði. Í kringum 1980 tók hún að safna efnivið um fjölskylduna, gamla vini og sjálfa sig og notaði til þess nýjustu tækni og vísindi þess tíma: Kasettuna. Á gluggakistu í eldhúsinu heima hjá henni stóð stórt, svart kasettutæki sem hún notaði til að taka upp söngva, sögur og samtöl. Í þessu myndbandi eru brot af upptökunum spilaðar undir ljósmyndum úr fjölskyldumyndaalbúmum Guðjónu og fjölskyldu hennar.

Horfið á stiklu úr stuttmyndinni „Hljóðin úr eldhúsinu“.

 

Beðið eftir storminum

Veðrið skipar stóran sess í lífum fólks á veturna og sérstaklega á dimmustu stundunum þegar geislar sólarinnar ná ekki inn í bæinn. Þetta myndband sýnir á örlítið dramatískan og íronískan hátt hvernig andrúmsloftið getur stundum verið í bænum rétt áður en stormurinn skellur á. Talsettur textinn sem heyrist í myndbandinu er samsafn af ráðum og leiðbeiningum um það hvernig þú átt að haga þér ef þú verður veðurteppt og missir tengingu við umheiminn. Þetta eru ekki hagnýt ráð eins og hvernig skuli moka sig út úr snjóskafli heldur leiðbeiningar um það hvernig skal vera í því ástandi að bíða eftir stormi. Það bætir í vindinn og hann verður snarpur. Hann safnar styrk á leiðinni yfir hafið og nýtur þess að skapa öldugang og hrista húsin. Gakktu um húsið, bankaðu á loftvogina og hlustaðu á fréttirnar. Súrefnið mun klárast í dag, farðu út og andaðu eins mikið og þú getur, talaðu á innsoginu. Andvarpaðu og kinkaðu kolli, kauptu G-mjólk, eldspýtur og brauð til að setja í frystinn. Tóninn í talsettri röddinni ber vitni um undarlega tilfinningu, kvíða vegna biðarinnar og einkennilega sjálfs-íróníu sem fólk á þessu svæði býr oft yfir. Myndbandið sýnir fallegt vetrarlandslag sem bætir við upplifunina á því hvernig veturnir geta verið á Vestfjörðum.

Horfið á stiklu úr stuttmyndinni „Beðið eftir storminum“.

is_ISÍslenska
%d bloggers like this: